Mánudagur 19. 08. 13
Hér skal enn einu sinni látin í ljós undrun yfir hvernig ESB-aðildarsinnum í Sjálfstæðisflokknum dettur í hug að afflytja stefnu flokksins. Raunar er með ólíkindum að Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksormaður skuli ganga fram fyrir skjöldu í ESB-málinu á þann hátt sem hún gerir í Fréttablaðinu. Að láta eins og landfundur sjálfstæðismanna hafi fyrir kosningar skuldbundið kjörna fulltrúa flokksins til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðnanna á kjörtímabilinu sem hófst 27. apríl 2013 er einfaldlega ekki rétt.
Gunnar Gunnarsson ræddi við Vilhjálm Bjarnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í Spegli ríkisútvarpsins mánudaginn 19. ágúst. Gunnar sagði:
„Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðnanna, það er skýrt. En utanríkisráðherra Framsóknarflokksins er á annarri skoðun og kannski fleiri úr hans flokki en það breytir ekki stjórnarsáttmálanum. Vilhjálmur Bjarnason, hvenær verður umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðnanna?“
Vilhjálmur gekk ekki í vatnið eins og þinflokksformaður sjálfstæðismanna þótt Gunnar Gunnarsson setti stjórnarsáttmálann fram á rangan hátt. Það sem Gunnar segir skýrt í stjórnarsáttmálanum stendur þar ekki heldur hitt að hlé verði gert á ESB viðræðunum og „ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu“. Ekkert segir um að stjórnaflokkarnir ætli að leggja fram tillögu um framhald viðræðnanna enda eru þeir báðir andvígir þeim.