Föstudagur 30. 08. 13
Í dag klukkan 17.15 flutti Marta Andreasen, ESB-þingmaður úr breska Íhaldsflokknum, erindi í Háskóla Íslands á vegum samtaka gegn ESB-aðild. Ræddi hún hvert ESB stefndi. Hún sagðist ekki hafa orðið andstæð ESB fyrr en eftir að hún starfaði þar í nokkra mánuði sem yfirmaður bókhaldsdeildar og kynntist spillingu og sóun í framkvæmdastjórn sambandsins.
Hún var kjörin á ESB-þingið 2009 fyrir UKIP, flokk breskra sjálfstæðissinna. Hún sagði skilið við flokkinn í ársbyrjun 2013 og gekk í breska Íhaldsflokkinn. Hún bindur miklar vonir við að stefna íhaldsmanna undir forystu Davids Camerons muni leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðildina að ESB og niðurstaða hennar muni valda þáttaskilum innan Evrópusambandsins og vekja þjóðir og ráðamenn til vitundar um nauðsyn lýðræðislegri stjórnarhátta. Þeir verði til þess að gjörbreyta ESB en hún telur sambandinu stjórnað af embættismönnum „mandarínum“ í Brussel sem hafi framkvæmdastjórnarmenn í vasanum. ESB-þingið sé eins og stimpill fyrir framkvæmdastjórnina og þar sé samstaða milli stærstu þingflokka um afgreiðslu mála. Þingmenn vilji helst ganga lengra í átt til sambandsríkis en framkvæmdastjórnin.
Andreasen var spurð hvort hún héldi, ræddu Íslendingar áfram um aðild við ESB, að þeir fengju sérlausn í sjávarútvegsmálum. Hún sagði að væri um varanlega sérlausn að ræða yrði að tryggja hana með „opt out“, það er varanlegri undanþágu frá Lissabon-sáttmálanum og það yrði ekki gert án þess að breyta honum. Þá breytingu yrði að bera undir þjóðþing allra ESB-ríkja. Það væri formlega hlið málsins og mjög sterk rök þyrfti til að þetta yrði gert. Efnislega yrðu menn að hafa í huga að ESB hefði mótað sameiginlega stefnu í landbúnaðarmálum annars vegar og sjávarútvegsmálum hins vegar – það væri óhugsandi að fá „opt out“ frá þessum stefnum.
Ég stjórnaði fyrirspurnalið fundarins sem var vel sóttur og margir lögðu fram spurningar.