Mánudagur 05. 08. 13
Hver stórtíðindin reka önnur í bandarískum blaðaheimi. Á dögunum seldi New York Times Company The Boston Globe fyrir 70 milljónir dollara en NYT keypti blaðið fyrir 1,1 milljarð dollara fyrir 20 árum.
Í dag var tilkynnt að Jeffrey P. Bezos, stofnandi Amazon, hefði keypt The Washington Post fyrir 250 milljónir dollara. Katharine Weymouth, útgefandi blaðsins, sagði frá þessu og tók fram að Bezos hefði keypt blaðið fyrir sjálfan sig en það yrði ekki eign Amazon.
Katharine Graham var um langt árabil útgefandi The Washington Post. Sjálfsævisaga hennar er vel skrifuð og eftirminnileg. Engum sem les hana dettur í hug að fjölskylda hennar neyðist til að selja blaðið vegna minnkandi auglýsingatekna og upplags.
Katharine Weymouth varð útgefandi The Washington Post árið 2008. Hún ber nafn ömmu sinnar sem dó árið 2001. Weymouth (f. 1966) er dóttir Lally Weymouth, dálkahöfundar og erfingja The Washington Post, og Yanns R. Weymouths arkitekts. Fjölskylda móðir hennar hefur átt blaðið í 80 ár eða síðan 1933 þegar Eugene Meyer, langafi hennar, keypti það og var hún hin fimmta úr fjölskyldunni tilað gegna stöðu útgefanda.
Skömmu eftir að Weymouth varð útgefandi bárust fréttir um að það kostaði 250.000 dollara að sitja kvöldverðarboð heima hjá henni og hitta starfsmenn The Washington Post. Hún kenndi markaðsdeildinni um þessa tilhögun og hætti að selja aðgang að heimili sínu.