Þriðjudagur 27. 08. 13
Mikill hiti er í mörgum vegna skipulagsmála í Reykjavík um þessar mundir. Í dag var efnt til fjölmenns fundar í Hagaskóla vegna tilraunastarfsemi borgaryfirvalda á Hofsvallagötunni þar sem sett hafa verið tákn sem eru ekki reist á neinum skráðum umferðarmerkjum og enginn með neinni vissu hvað þýða. Tilgangurinn með merkjunum er að heyja stríðið við einkabílinn með nýjum vopnum. Auðvitað er þetta ekki stríð við bílinn heldur borgarana sem nota hann. Tilraun til að breyta háttum borgarbúa – borgaryfirvöld telja sig til þess bær að gerast uppalendur ökumanna án þess að fara hefðbundnar leiðir innan ramma umferðarlaga.
Einkennilegt er að ekki skuli neinn kjörinn fulltrúi hafa staðið fyrir máli borgarstjórnar sem framsögumaður á fundinum í Hagaskóla. Hvað býr þar að baki? Hvers vegna er embættismönnum falið að verja umdeilda ákvörðun af þessu tagi? Ráða ekki pólitísk sjónarmið ákvörðuninni um að prófa þessa nýju aðferð gegn einkabílnum?
Tilraunir borgarfulltrúanna sem berjast gegn Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni til að sannfæra aðra um ágæti skoðana sinna eru dæmdar til að mistakast. Látið er eins og að baki búi einhver óskilgreind sérþekking á hvað fólki sé fyrir bestu. Í krafti hennar sé sjálfsagt að blása á skoðun meirihlutans. Að þessu leyti eru tengsl milli andúðar á flugvellinum og einkabílnum. Spurning vaknar hvort talsmönnum þessarar stefnu sé almennt á móti skapi að fólk eigi auðvelt með að komast úr einum stað í annan.
Á nokkrum árum hefur verið ráðist í byggingar skrifstofuhúsa við Borgartún. Þar hefur verið staðið að skipulagi á þann hátt að illmögulegt er að finna stæði fyrir bíla. Ætli þeir sem völdu sér starfsstöð þarna hafi áttað sig á víglínunni gegn einkabílnum í Borgartúni?