7.8.2013 22:45

Miðvikudagur 07. 08. 13

Á Evrópuvaktinni birtist á dögunum frétt úr franska blaðinu Le Monde sem hefur gert blaðamann út af örkinni til að skrifa um umrótið á norðurslóðum. Fyrsta grein hans snerist um Grímsstaði á Fjöllum og áhuga Huangs Nubos á að kaupa 300 ferkílómetra lands þar og með henni birtist sérteiknað kort af norðurslóðum þar sem Grímsstaðir eru einskonar miðpunktur.

Þessi frásögn í blaðinu er til marks um að hvarvetna setja menn hugmyndina um golfvöll og frístundahús fyrir Kínverja á Grímsstöðum á Fjöllum í samband við kínversk útþensluáform. Blaðamaðurinn lætur þess jafnframt getið að Halldór Jóhannsson, umboðsmaður Huangs hér á landi, standi einnig að mótun og framkvæmd hugmyndar um umskipunarhöfn vegna Norður-Íshafssiglinga.

Fjallað hefur verið um Grímsstaði, Ísland og Huang Nubo í öllum helstu blöðum heims. Greinar um málið hníga allar til sömu áttar. Kínverjar leggja kapp á að ná fótfestu á norðurslóðum.

Fregnir af makrílveiðum milli Íslands og Grænlands leiða í ljós að þar eru stór kínversk verksmiðjuskip á veiðum, þau láta sig ekki muna um að sigla um hálfan hnöttin til að bera sig eftir björginni. Þá hefur kínverska olíufélagið CNOOC, China National Offshore Oil Corporation, tekið þátt í olíuvinnslu í Norðursjó og nú stofnað til samstarfs við íslenska fyrirtækið Eykon vegna olíuleitar á Drekasvæðinu.

Þessar staðreyndir tala sínu máli um nýjar og gjörbreyttar aðstæður í okkar heimshluta.