21.8.2013 22:50

Miðvikudagur 21. 08. 13

Heimir Már Pétursson er fréttamaður hjá 365 um þessar mundir. Hann hefur víða drepið niður fæti. Á sínum tíma var hann framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og reyndi fyrir sér innan Samfylkingarinnar, meðal annars í prófkjöri til þings 1999.

Vegna umræðna um málefni ríkisútvarpsins segir Heimir Már í grein í Fréttablaðinu í dag:

„Það er sorglegt og raunar ekkert annað en ógnvænlegt hvernig hluti valda- og á stundum forréttindastéttarinnar í landinu ræðst ítrekað með ruddalegum dólgshætti að fréttastofu Ríkisútvarpsins og oft nafngreindum fréttamönnum þar. Þetta er slíkur ruddaskapur að sæmir ekki siðuðu samfélagi sem, í orði alla vega, kennir sig við lýðræði.“

Heimir Már rökstyður ekki þessi stóryrði sín. Hvaða dæmi hefur hann í huga þegar notar orðin „ruddalegum dólgshætti“?

Þá hefur Morgunblaðið gerst sekt um að ráðast „af blindri heift og vænisýki að fréttastofu Ríkisútvarpsins“ að mati Heimis Más. Hann nefnir ekki eitt dæmi til marks um þetta.

Þá fullyrðir fréttamaðurinn að hér á landi sé hópur fólks sem „þolir ekki lýðræðislega og opna umræðu. Er beinlínis í nöp við hana. […] Fólk sem hugsar með þessum hætti er til óþurftar í lýðræðislegu samfélagi og er því raunar einstaklega hættulegt. Um það vitnar mannkynssagan“.

Í þessum orðum felst að réttlætanlegt sé að ganga gegn sjónarmiðum hóps manna af því að hann sé til „óþurftar í lýðræðislegu samfélagi“ og þetta fólk sé raunar „einstaklega hættulegt“ lýðræðislegu samfélagi. Á þennan veg er jafnan talað um pólitíska hryðjuverkamenn í fréttum. Ber ekki fréttamanni að upplýsa almenning eða yfirvöld um hverjir skipa slíkan hóp manna viti hann af honum?

Um kynni sín af stjórnmálamönnum segir Heimir Már: „margir þeirra þrífast á samsærum, baknagi, svikum og prettum til að ná sínu fram, hvort sem það snertir persónulega hagsmuni þeirra sjálfra, eða hagsmuni sem þeir beita sér fyrir og vilja með góðu eða illu troða ofan í þjóðina“.

Þegar þessi reiðilestur fréttamannsins er skoðaður vaknar spurningin: Hvaða tilgangi þjóna þessi stóryrði? Allir menn hafa rétt til að segja skoðun sína á ríkisútvarpinu eins og öðrum stofnunum ríkisins. Hvað hefur verið sagt sem réttlætir stóryrði Heimis Más? Hvernig væri að hann nefndi eitt einasta dæmi til að réttalæta hinar alvarlegu ásakanir? Það er háttur vandaðra fréttamanna.