18.8.2013 22:10

Sunnudagur 18. 08. 13

Það er árátta hjá ESB-aðildarsinnum að líta alltaf þannig á að það sem þeir vilja skuli hafa forgang en ekki sameiginleg niðurstaða þeirra sem ráða ákvörðun að lokum. Þessu hafa menn kynnst á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Þar hefur hvað eftir annað verið ályktað á þann veg að flokkurinn telji hagsmunum íslensku þjóðarinnar best borgið utan ESB.

ESB-aðildarsinnum er þetta ekki að skapi og sumir yfirgáfu flokkinn fyrir kosningar í apríl 2009 og kusu Samfylkinguna eða tóku þátt í auglýsingaherferð með henni. Á landsfundi 2011 áréttaði Sjálfstæðiflokkurinn andstöðu við ESB-aðild og samþykkti að gert yrði hlé á aðildarviðræðunum sem hófust 2009, þær yrðu ekki hafnar að nýju nema með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á landsfundi 2013 var orðinu „hlé“ breytt í „hætt við“ – því reiddust aðildarsinnar og höfðu í hótunum fyrir kosningar í apríl 2013. Þá galt ESB-aðildarstefnan hins vegar afhroð með hruni Samfylkingarinnar.

ESB-viðræðunum hefur verið hætt og stækkunardeild ESB veitir ekki lengur aðlögunarstyrki.

Sumarið 2009 máttu ESB-aðildarsinnar ekki heyra á það minnst að leitað yrði til þjóðarinnar áður en aðildarumsókn yrði send til Brussel. Tillaga um það var felld á alþingi og mátti helst skilja suma spekinga í hópi aðildarsinna á þann veg að þeir væru hálfgerðir bjálfar sem vildu slíka atkvæðagreiðslu. Hún þekktist ekki meðal siðmenntaðra þjóða.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald ESB-viðræðnanna ekki tímasett. Það er skiljanlegt í ljósi þess að hvorugur flokkanna vill halda þeim áfram. Nú bregður hins vegar svo við að ESB-aðildarsinnar láta eins og þeim sé ekkert kærara en þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ræða eigi áfram við ESB, annað sé svik við kjósendur! Í þingkosningunum höfnuðu kjósendur þeim sem vilja halda ESB-viðræðunum áfram, að vinna að því væri svik við kjósendur.