Föstudagur 09. 08. 13
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, var einn þeirra sem féll út af þingi í kosningunum í apríl. Hann hefur verið einn ákafasti talsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu og skrifar á vefsíðu sína í dag í tilefni af ákvörðun stækkunardeildar ESB að hverfa frá IPA-styrkveitingum til Íslendinga:
„Ekki efast ég um það eitt augnablik að margir þingmenn stjórnarflokkanna, utan teboðsgrúppunnar, vilja ljúka viðræðum og freista þess að ná lúkningu í ferlið. Leyfa fólkinu í landinu að ákveða þetta sjálft. En þeir leggja ekki í það. Óttinn við ofsann í ritstjóranum, kaupfélagsstjóranum og hinum í teboðinu heldur þeim föngnum og vandræðagangurinn eykst einsog glataðir IPA styrkir bera með sér.“
Björgvin G. skýrir ekki hvað hann á við með „teboðsgrúppunni“. Orðið vísar til stjórnmálahreyfingar í Bandaríkjunum sem berst fyrir svo sér-bandarískum málum að fráleitt er að kenna einhverja stjórnmálamenn hér á landi við hana. Hvað sem því líður er kenning Björgvins G. um skoðanir þingmanna stjórnarflokkanna undarleg í ljósi þess að kosningarnar 27. apríl 2013 voru sögulegar fyrir þá sök að þar höfnuðu kjósendur Björgvini G. og flokkssystkinum hans á svo eftirminnilegan hátt að ekkert sambærilegt hefur gerst í tæplega 70 ára lýðveldissögu Íslands.
Að ímynda sér að einhverjir stjórnmálamenn utan Samfylkingarinnar dreymi um að fá tækifæri til að feta í ESB-fótspor hennar eftir útreiðina í síðustu kosningum er stórundarlegt svo að ekki sé meira sagt. Er ástæða að velta fyrir sér í hvaða grúppu þeir menn eru sem láta sér detta slíkt í hug.