Fimmtudagur 15. 08. 13
Í marga áratugi hefur verið deilt um fréttaflutning og efnistök ríkisútvarpsins. Umræðurnar um útvarpið hafa hins vegar ekki komist á sama stig og nú og þar ræður mestu hvernig stjórnendur ríkisútvarpsins taka á málum, útvarpsstjóri Páll Magnússon og fréttastjóri Óðinn Jónsson. Þeim er sérstaklega uppsigað við Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar sem hefur hvað eftir annað bent á hlutdrægni fréttastofunnar og fært rök fyrir gagnrýni sinni. Finni þeir Páll og Óðinn snöggan blett á því sem um þá er sagt í Morgunblaðinu er eins og þeir hafi himin höndum tekið. Þá hefur einn fréttamanna ríkisins ákveðið að lögsækja Pál Vilhjálmsson bloggara sem gagnrýndi efnistök í fréttum.
Fréttablaðið tekur afstöðu með ríkisútvarpinu eins og sést af leiðara blaðsins í dag þar sem Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri krefst afsagnar eða brottrekstrar Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, úr tveimur þingnefndum vegna þess að hún hafi sagt hluti um ríkisútvarpið sem særðu réttlætiskennd ritstjórans.
Hér á síðunni hefur síðan 1995 margoft verið bent á það sem betur má fara hjá ríkisútvarpinu og ávallt leitast við að færa rök fyrir því. Þegar gagnrýni var færð fram á meðan ég sat á þingi og gegndi ráðherrastöðu varð stundum uppnám vegna þess sem hér var sagt þótt lætin hefðu aldrei orðið á þann veg sem nú birtist.
Hið einkennilega er að æsingurinn allur virðist ráðast meira af hver gagnrýnir ríkisútvarpið en um hvað gagnrýnin snýst. Hverjum dettur í hug að Vigdís Hauksdóttir geti upp á sitt eindæmi sem formaður fjárlaganefndar eða nefndarmaður í hagræðingarnefnd skorið niður fjárveitingar til ríkisútvarpsins? Engum heilvita manni. Árásunum á hana og ritstjóra Morgunblaðsins er ætlað að þagga niður í gagnrýnendum. Öllu er beitt að fordæmi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem stýrir Fréttablaðinu á bakvið tjöldin.
Þegar umræðan á ríkisútvarpið hefur færst á núverandi stig verður hún stofnuninni aðeins til meira tjóns. Stjórnendur útvarpsins eru engir menn til að leiða málið friðsamlega til lykta. Spurning er hvað stjórn stofnunarinnar gerir. Finnst henni eðlilega að málum staðið af hálfu innanhússmanna?