Miðvikudagur 14. 08. 13
Í dag ræddi ég við Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing í þætti mínum á ÍNN um Lewis-taflmennina svonefndu og þá kenningu að þeir hafi verið gerðir á Íslandi. Þátturinn verður sýndur á miðnætti og á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Í Spegli ríkisútvarpsins í kvöld var rætt um hugleiðslu sem „innhverfa íhugun“ og látið eins og það væri eitthvað undarlegt við að hjá Google og fleiri fyrirtækjum í Silicon Valley hvettu stjórnendur til hugleiðslu. Tónninn í frásögninni bar þess merki að blaðamanninum þætti þetta að minnsta kosti skondið ef ekki eitthvað enn undarlegra.
Hugleiðsla hefur verið stunduð öldum saman og hin síðari ár hefur hún gengið í endurnýjun lífdaga og öðlast sífellt meiri útbreiðslu, ekki aðeins innan fyrirtækja heldur einnig að tilmælum lækna og innan dyra í sjúkrahúsum.
Í maí birti Der Spiegel langa grein um áhrif hugleiðslu á heilsu og heilbrigði og skömmu síðar birtist grein um sama efni á forsíðu franska vikuritsins Le Point. Í júlí var franska tímaritið Sciences et Avenir með forsíðugrein um að hugurinn læknaði líkamann. Þar var bent á að slægi maður orðunum health og meditation inn á Google fengi maður um 110 milljón tilvísanir. Þetta sýndi best hve þetta tvennt væri tengt.
Ýmsar aðferðir eru notaðar við hugleiðslu en rótin er hjá búddamunkum og víða tengist hugleiðsla trúarbrögðum og trúariðkun en hún er í raun hlutlaus í þessu efni því að í hugleiðslu ber að hvíla huga og hugsun í þögn.
Qi gong er ein aðferðanna sem notaðar eru til að ná árangri í hugleiðslu. Föstudaginn 23. ágúst klukkan 16.00 flytur Ken Cohen, meistari í qi gong frá Bandaríkjunum, fyrirlestur í húsi Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8. Cohen er vinsæll og virtur fyrirlesari í Bandaríkjunum og þarna gefst einstakt tækifæri til að kynnast þessari leið til hugleiðslu.