Föstudagur 16. 08. 13
Samtal mitt á ÍNN við Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing um Lewis-taflmennina er komið á netið og má sjá hann hér.
Þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra máttu framsóknarmenn ekki heyra orðinu hallað um ríkisútvarpið og stóðu gegn öllum róttækum breytingum á því. Nú nær óánægja með stofnunina langt inn í þingflokk framsóknarmanna og sumir ná vart andanum vegna reiðilegra ummæla Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um útvarpið. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er í forystu fyrir fésbókarsíðu til eftirlits með ríkisútvarpinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrifaði harða ádeilugrein á ríkisútvarpið í Morgunblaðið.
Hér er um sögulega pólitíska þróun að ræða sem ber með sér að núverandi stjórnendum ríkisútvarpsins hefur tekist að skapa sér óvild innan stjórnmálaflokks sem fyrir fáeinum árum mátti ekki heyra á það minnst að hróflað yrði við ríkisútvarpinu.
Sjónarhorn fréttastofu ríkisútvarpsins er ekki aðeins á skjön við viðhorf meirihluta þjóðarinnar heldur hefur stofnunin brotið brýr að baki sér hjá hinum ráðandi pólitísku öflum. Forystumenn útvarpsins bjarga ekki málinu með árásum á Morgunblaðið og ritstjóra þess. Forstokkun er ríkjandi á fréttastofunni í Efstaleiti og þeir sem eiga að vera óhlutdrægir hafa gripið til vopna og dregið víglínu á þann hátt sem aldrei hefur verið gert áður. Þeir eru dæmdir til að tapa og spurning hvort ríkisútvarpið lifir.