20.8.2013 23:55

Þriðjudagur 20. 8. 13

Í nýjasta hefti The Economist er sagt frá því að The New York Times (NYT) sé með mesta netáskrift allra dagblaða, 700.000 áskrifendur. Fyrir nokkrum vikum bauð NYT 12 vikna áskrift fyrir 5 dollara, síðar var tilboðinu breytt í 99 cent fyrir 12 vikur. Eftir það kostar áskriftin mismikið á mánuði eftir því hvers eðlis hún er, t.d. 20 dollara á mánuði fyrir net og iPad-áskrift.

Ég fylgist með nokkrum fjölmiðlum á netinu og hefur enginn sótt jafnfast að laða þá sem eru á póstlista sínum til að gerast áskrifendur og NYT. Það hefur greinilega borið góðan ávöxt eins og fram kemur í The Economist. Varla hagnast þó neinn að bjóða 12 vikur fyrir 99 cent, rúmar 100 krónur. Tilgangurinn er greinilega að fá menn til að fallast á að greiða fyrir aðgang að fréttamiðlun.

Af þeim blöðum sem ég þekki dáist ég mest af því hvernig Le Monde hefur lagað sig að hinni nýju tækni, blað sem fyrir fáeinum árum birti ekki ljósmyndir á síðum sínum stendur nú mjög framarlega við miðlun frétta á netinu.

Meðal þess sem einkennir NYT og Le Monde er skjót miðlun frétta sem ritstjórnirnar telja miklu skipta og sending skeyta um þau í tölvupósti. Er forvitnilegt að bera saman hver er fyrstur með fréttina og hvað er talið fréttnæmast hjá hverjum fyrir sig. Almennt séð er ekki mikill munur á fréttamatinu.