28.8.2013 22:55

Miðvikudagur 28. 08. 13

Í dag tók ég viðtal við Ragnar Axelsson (Rax) ljósmyndara í tilefni af nýrri glæsilegri bók hans Fjallaland. Viðtalið má næst sjá á ÍNN á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Niðurstöður lesskimunarkönnunarinnar í grunnskólum Reykjavíkur á ekki að gera opinberar. Hver skóli fær að vita sitt meðaltal og hvar hann stendur miðað við meðaltal hinna skólanna og foreldrar fá að vita hvar börn þeirra standa, en lengra nær það ekki.

Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, sagði í Morgunblaðinu þriðjudaginn 27. ágúst að listar yfir það hvar skólar stæðu í könnunum og skimunum væru ekki birtir: „Þetta eru í eðli sínu umbótatæki fyrir hvern og einn skóla en ekki til að ýta undir samkeppni milli skóla sem í alþjóðlegri umræðu um menntamál þykir hvorki til þess fallið að auka gæði né auka jafnræði.“

Af þessu tilefni segir í leiðara Morgunblaðsins í dag:

„Þetta er undarleg heimspeki og fróðlegt væri að vita hvar þessi alþjóðlega umræða um menntamál fer fram. Hvernig í ósköpunum getur það verið skaðlegt að það komi fram hvar skólar standa? Er það vegna þess að þá gætu foreldrar viljað senda börn sín annað í skóla? Er þá ekki nær að segja að það séu vörusvik að halda þeim upplýsingum frá foreldrum og nemendum hvernig tilteknir skólar standa sig? Og það gæti jafnvel leitt til þess að börn, sem ganga í viðkomandi skóla, njóti ekki jafnræðis við börn úr öðrum skólum síðar á námsleiðinni?“

Hér skal dregið í efa að Morgunblaðið fái nokkru sinni svör við þessum spurningum frá borgaryfirvöldum. Þau munu ekki birta þesssar upplýsingar nema þeim sé gert það skylt með lögum. Á sínum tíma beitti ég mér fyrir að birtar voru upplýsingar um niðurstöðu í samræmdum prófum. Nú er það ekki lengur gert og auk þess hafa prófin verið afnumin í lok grunnskóla. Þetta er mikil afturför sem orðið hefur fyrir þrýsting frá kennurum sem finnst íþyngjandi og óþægilegt að starfa undir því gegnsæi sem felst í þessari upplýsingamiðlun.