3.8.2013 23:00

Laugardagur 03. 08. 13

Veðrið var einkennilegt í Fljótshlíðinni í dag. Hann blés duglega að norðan og aska eða moldryk lokaði útsýn til Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja. Rut efndi til árlegs flóamarkaðar og margir létu sjá sig þótt þeir stöldruðu ekki eins lengi við og í betra veðri.

The New York Times Company tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði selt The Boston Globe og aðra fjölmiðla sína á New England. Kaupandinn er John W. Henry, helsti eigandi Boston Red Sox-liðsins og Liverpool-liðsins í Bretlandi. Blaðið er að nýju komið í eigu heimamanna eftir tveggja áratugi í eigu NYT Company. Söluverðið er 70 milljónir dollara. Það sýnir gífurlega lækkun á verðmæti blaðsins. NYT Company keypti það árið 1993 fyrir 1,1 milljarð dollara, hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir bandarískt dagblað.

Þessi frásögn er enn eitt dæmið um vandræði dagblaða í nýju starfsumhverfi vegna upplýsingabyltingarinnar. Blöðin fikra sig nú öll í þá átt að venja netnotendur við að greiða fyrir aðgang að efni blaðanna. Aðferðirnar sem beitt er felast í hagstæðum tilboðum, NYT býður til dæmis þeim sem hafa lengi verið á póstlista vefútgáfu blaðsins að gerast áskrifendur fyrir fimm dollara í 12 vikur.