6.8.2013 21:05

Þriðjudagur 06. 08. 13

Ég skrifaði leiðara á Evrópuvaktina í dag og lýsti undrun yfir hálfvelgju ríkisstjórnarinnar í stuðningi við Færeyinga í síldardeilu þeirra við ESB og yfir álappalegri framgöngu gagnvart Grænlendingum vegna makrílveiða. Mér er óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin tekur ekki forystu meðal eyþjóðanna í N-Atlantshafi við varnir þeirra gegn ólögmætri íhlutun. Norskur fiskifræðingur telur að kröfur Norðmanna og ESB í makrílmálinu leiði til gjöreyðingar í Noregshafi. Hér má lesa leiðarann.

Þeir sem hafa áhyggjur af að ég hafi beitt mér fyrir stofnun embættis sérstaks saksóknara til að hefja einskonar galdraofsóknir á hendur mönnum eftir bankahrunið geta auðveldlega kynnt sér sjónarmið mín með því að lesa það sem ég sagði um þetta mál haustið 2008, það er allt hér á vefsíðunni meðal annars ræða sem ég flutti á alþingi 15. október og lesa má hér.

Í annarri ræðu sagði ég meðal annars: 

„Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis.“

Ekkert blað gekk lengra á þeirri braut á árunum 2002 til 2008 að grafa undan trausti í garð ákæruvaldsins og réttarkerfisins en Fréttablaðið og gekk í því efni erinda eigenda sinna meðal annars með árásum á mig persónulega. Menn hafa ekki látið af því í ritstjórnardálkum blaðsins. Ég hef rakið þessa sögu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi.