22.8.2013 22:30

Fimmtudagur 22. 08. 13

Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson kynnti utanríkismálanefnd alþingis í dag álit lögfræðinga um gildi þingsályktana og er það í samræmi við viðtekna stjórnlagafræðilega skoðun í landinu til þessa. Gildi pólitískra ályktana ræðst af því hvort meirihluti er fyrir þeim á hverjum tíma. Nú hafa þeir sem stóðu að ályktuninni um aðild Íslands að ESB ekki lengur meirihluta á alþingi, nýr meirihluti á þingi er ekki bundinn af því sem hann er ósamþykkur þegar um pólitíska stefnumörkun er að ræða.

Viðbrögð stjórnarandstæðinga eru með ólíkindum. Kristján L. Möller, einn varaforseta alþingis, ætlar að fara með klögumál inn í forsætisnefnd þingsins. Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, lætur eins og tilraun hafi verið gerð til valdaráns. Hann spyr á vefsíðu sinni: „Þegar ríkisstjórn ónýtir ákvarðanir Alþingis sem kosið var með lögmætum hætti í lýðræðislegum kosningum – er það þá ekki næsti bær við valdarán?“ Hafi hann lesið álitið, hefur hann ekki skilið það. Ætli hann viti hvað felst í þingræðisreglunni?

Mörður Árnason gengur lengst í vitleysunni og dregur þá ályktun að aðildin að NATO frá árinu 1949 sé marklaus af því að hún hafi verið samþykkt með þingsályktun. Hve margar misheppnaðar tilraunir hafa síðan verið gerðar til að fá ályktuninni hnekkt? Er það ekki enn á stefnuskrá VG að Ísland eigi að hverfa úr NATO? Það hefur hins vegar aldrei tekist að skapa þingmeirihluta um þá stefnu.

Ég tel að þessi afstaða stjórnarandstæðinga gegn rökstuddu áliti sem styðst við viðtekna fræðilega skoðun í stjórnlagarétti sé skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamenn grafa undan virðingu alþingis. Ég skrifaði um það á Evrópuvaktina eins og hér má lesa.