12.8.2013 21:40

Mánudagur 12. 08. 13

Hvað eftir er ástæða til undrast skrif Stefáns Ólafssonar prófessors sem einkennast annaðhvort af vanþekkingu eða hreinni ósvífni. Stefán heldur uppi vörnum fyrir IPA-styrkina og rökstyður gagnrýni á andstæðinga þeirra á vefsíðunni Eyjuna sunnudaginn 11. ágúst m.a með þessum orðum:

„Mikill fégróði var tryggður frá Bandaríkjamönnum í gegnum hermangið og t.d. helmingaskiptaregluna sem Íslenskir aðalverktakar voru reknir eftir. Þannig má segja að efnahagsleg þýðing bandaríska hersins hafi verið umtalsverð frá um 1950 og næstu áratugina þar á eftir. Yfir tíma dróg (svo!) úr umfanginu.[…]

En þegar talsmenn vestrænnar samvinnu, sem aldrei sáu neina ógn við sjálfstæði landsins af gríðarlegu efnahagslegu og pólitísku hlutverki Bandaríkjanna hér á landi, fara offari yfir smápeningum sem ESB veitir ríkjum sem sækja um aðild í umbótastyrki, þá finnst mér tvískinnungurinn keyra um þverbak. Tvískinnungur og óheilindi í málflutningi þeirra um ESB er í samræmi við það.“

Getur verið að Stefán Ólafsson hafi ekki hugmynd um deilurnar vegna Aronskunnar svonefndu sem miðaði að því að gera varnarsamstarfið að féþúfu? Í þeirri deilu skipaði Morgunblaðið sér í sveit með meirihluta sjálfstæðismanna og talsmenn vestrænnar samvinnu snerust almennt gegn Aronskunni, hún náði ekki fram að ganga. Við Styrmir Gunnarsson vorum í hópi þeirra sem börðumst af þunga gegn Aronskunni, það er því einstaklega ómaklegt af Stefáni Ólafssyni gera lítið úr andstöðu okkar við IPA-styrki á þann hátt sem hann gerir.

Bandaríkjamenn greiddu fyrir þjónustu og vörur sem þeir keyptu og stóðu undir kostnaði við uppbyggingu á varnarsvæðinu. Þegar skilið var á milli hernaðarlegrar og borgaralegrar starfsemi á vellinum lögðu þeir fé af mörkum til smíði nýrrar flugstöðvar. Að afsaka IPA-styrki með því að nefna nýju flugstöðina eins og Stefán Ólafsson gerir er fráleitt. Styrkirnir eru ráðstöfunarfé stækkunardeildar ESB til að innlima fleiri ríki í sambandið – Bandaríkjastjórn gerði aldrei tilraun til að innlima Ísland.