10.8.2013 23:55

Laugardagur 10. 08. 13

Í dag undraðist ég á Evrópuvaktinni að birst hefði viðtal við Halldór Jóhannsson, umboðsmann Huangs Nubos, í Morgunblaðinu þar sem hann kvartaði undan því að umbjóðandi sinn hefði ekki fengið svar frá íslenskum stjórnvöldum! Það hefði ekki spillt ef blaðið hefði vakið athygli lesenda sinna á að stjórnvöld hafa svarað Huang Nubo og hafnað ósk hans um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Hið óskiljanlega í þessu máli er að Halldór Jóhannsson áttar sig ekki á stöðu þess. Huang Nubo fær aldrei þá aðstöðu sem hann vill hér á landi. Spurningin sem á að leggja fyrir Halldór Jóhannsson er þessi: Hvers vegna hættið þið Huang Nubo ekki þessu brölti? Að öðrum þræði hefur það snúist um að draga upp brenglaða mynd af Íslandi í Kína. Þá hefur það einnig orðið fjölmiðlum á Vesturlöndum, nú síðast Le Monde, tilefni til skrifa um Ísland sem einkennast af undrun yfir að nokkrum manni kæmi til hugar að áform Huangs Nubos næðu fram að ganga.