16.7.2010

Föstudagur, 16. 07. 10.

Eyjafjallajökull blasti svartur við fram eftir degi. Síðan jókst vindur úr norðvestri og jökullinn hvarf í ösku.

Í dag er rétt ár liðið frá því, að alþingi samþykkti að senda aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Fyrir aðildarsinna hefur atburðarásin ekki skilað málstað þeirra auknu fylgi, þvert á móti.

Hið furðulega er, að enginn kveður sér í raun hljóðs og segir afdráttarlaust, að hagsmunum Íslands sé borgið innan ESB. Áróðurinn byggist á því, að gefa eigi Íslendingum kost á að greiða atkvæði um niðurstöðu aðlögunarviðræðnanna. Látið er í veðri vaka, að enginn leið sé að geta sér til um niðurstöðu þeirra.

Þeir, sem láta eins og einhver leyndardómur muni ljúkast upp í viðræðunum við ESB og þjóðin eigi rétt á að kynnast honum, hafa ekki viljað viðurkenna, að samningar við Breta og Hollendinga Icesave séu skilyrði fyrir ESB-aðildarviðræðum. Þeir virðast ekki átta sig á því, að Íslendingar verða að hætta hvalveiðum til að verða gjaldgengir í ESB-viðræður. Nú hafa Írar og fleiri þjóðir með þeim krafist þess, að Íslendingar hætti veiðum á makríl til að unnt sé að ræða við þá um ESB-aðild.