12.7.2010

Mánudagur, 12. 07. 10.

Nicolas Sarkozy sat í meira en klukkutíma í beinu sjónvarpssamtali við helsta fréttamann Frakklands í kvöld. Þeir sátu í garði Elysée-hallarinnar í hjarta Parísar, þar sem Frakklandsforseti hefur aðsetur.

Sarkozy ákvað að veita samtalið til að ná tökum á málum eftir stöðugar árásir í þrjár vikur á Eric Woerth, atvinnumálaráðherra Frakklands. Ráðherrann er sakaður um spillingu vegna fjármála Liliane Bettencourt, auðugustu konu Frakklands. Sarkozy sagðist bera fullt traust til Woerths. Með ómaklegum árásum á hann væru stjórnarandstæðingar að reyna að bregða fæti fyrir endurbætur á franska lífeyriskerfinu en Woerth ber ábyrgð á þeim. Þær eru þungamiðja í umbótum Sarkozys á frönskum ríkisfjármálum. Varði Sarkozy umbæturnar af miklum þunga.

Fyrir þá, sem búa hér á landi, og verða þessa mánuði að sætta sig við forystulausa ríkisstjórn, þar sem hver höndin er upp á móti annarri, væri góð áminning um, hve langt okkur hefur rekið af frá styrkri stjórn, að horfa á Sarkozy. Hvort sem menn eru sammála honum eða ekki, er ekki unnt annað en dást að rökfestunni og ákafanum.

Viðtalið við Sarkozy og áhrif þess skipta máli fyrir fleiri en Frakka. Sé ekki sterkur forseti í Frakklandi og öflugur kanslari í Þýskalandi, er pólitíska forysta Evrópusambandsins veik og ESB máttlaust. Sarkozy og Angela Merkel eiga bæði undir högg að sækja á heimavelli fyrir utan að eiga ekki skap saman. Þetta er hluti af hinum alvarlega vanda, sem steðjar að Evrópusambandinu um þessar mundir.