21.7.2010

Miðvikudagur, 21. 07. 10.

Einkennilegt er, að enginn fjölmiðill sýnir því áhuga, að nk. mánudag, 26. júlí, rennur út frestur ríkisstjórnarinnar til að andmæla áminningu ESA vegna Icesave. Raunar er auðvelt að færa rök fyrir því, að ESA hafi orðið vanhæft til að fjalla um málið, eftir að forseti ESA notaði komu sína hingað til lands vegna 50 ára afmælis EFTA til að rífast við Össur Skarphéðinsson og lýsa því síðan yfir, að hann væri viss um, að EFTA-dómstóllinn mundi dæma ESA í vil færi málið fyrir hann. Er augljóst, að engin andmæli duga til að breyta skoðun ESA-forsetans.

Áhugaleysi fjölmiðlanna á ESA og Icesave er dæmigert fyrir, hve litla burði þeir hafa til að fylgja málum eftir.

Líklegt er, að íslensk stjórnvöld hafi farið fram á skilafrest gagnvart ESA. Sé svo, ber að skýra frá því opinberlega, eins og hinu, hvort tíminn sé notaður til að leita samkomulags við Breta og Hollendinga. Leynimakk ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu ætti að hafa skaðað hana nóg, til að ráðherrar áttuðu sig á gildi þess að halda þjóðinni upplýstri.

Leyndarhyggja og vandræðagangur eru aðalsmerki þessarar lélegu ríkisstjórnar, sem sameinast ekki um að takast á við verkefni í þágu þjóðarinnar. Ráðherrar og þingmenn rífast þess í stað um menn og málefni.