11.7.2010

Sunnudagur, 11. 07. 10.

Í tilefni af safnadeginum  fórum við til Hafnarfjarðar og heimsóttum þrjú hús: Siggubæ, Bookless-Bungalow og hús Bjarna riddara Sívertsens auk þess að skoða byggðasafnið sjálft, þar sem nú er sérstök sýning tengd sögu Rafha.

Siggubær var byggður árið 1902 af Erlendi Marteinssyni sjómanni. Dóttir hans, Sigríður Erlandsdóttir, var tíu ára gömul þegar hún fluttist í húsið og bjó hún þar allt til ársins 1978 er hún fluttist á elli- og hjúkrunarheimilið Sólvang þar sem hún lést tveimur árum síðar. Bær hennar er varðveittur sem sýnishorn af verkamanns- og sjómannsheimili í Hafnarfirði frá fyrri hluta 20. aldar.  Andi Siggu og fjölskyldu hennar svífur yfir, enda hefur litlu hefur verið breytt í húsinu. Við hlið þess er skemma en þangað komu börn fyrr á árum, sem báru út Alþýðublaðið, því að Sigga var umboðsmaður þess í Hafnarfirði.

Sívertsens-húsið er elsta hús Hafnarfjarðar, byggt á árunum 1803-05 af Bjarna Sívertsen. Húsið hefur verið gert upp í upprunalega mynd. Þar er sýnt hvernig yfirstéttafjölskylda í Hafnarfirði bjó á fyrri hluta 19. aldar, auk þess sem varpað er ljósi á merkilega sögu Bjarna Sívertsens og fjölskyldu hans.

Árið 1910 hóf fyrirtækið Bookless Bros. Ltd. frá Aberdeen, fyrst útgerð og síðar fiskverkun í Svendborg eins og fiskverkunarhúsin í Hafnarfirði voru nefnd í daglegu tali. Eigendur fyrirtækisins voru bræður, Harry Bookless og Douglas Bookless. Fyrstu tvö árin gerði Bookless Bros. Ltd. út fjóra togara frá Hafnarfirði og að auki lögðu nokkrir breskir togarar upp afla sinn hjá fyrirtækinu. Lögð var sporbraut frá lóð fyrirtækisins upp að fiskreitum þess. Svendborgarhúsið var stækkað og reist voru nokkur fiskverkunarhús til viðbótar og tvö íbúðarhús og var annað þeirra fyrir starfsfólk fyrirtækisins en hitt svonefnt “Bungalow” fyrir stjórnendur fyrirtækisins. Mikið verðfall varð á fiski árið 1920 og reið það mörgum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum að fullu. Varð sú raunin með starfsemi Bookless Bros. Ltd. í Hafnarfirði sem lauk árið 1922 er fyrirtækið varð gjaldþrota. Húsi þeirra var breytt í safn árið 2008.

Ég mæli með skoðunarferð í Hafnarfjörð til að kynnast þessum húsum og hve vel og smekklega er frá öllu gengið innan dyra og utan.