8.7.2010

Fimmtudagur, 08. 07. 10.

Ríkisstjórnin lafir eins lengi og vinstri-grænir hafa geð í sér til að standa að umsókninni um ESB-aðild. Þeir ætla að taka málið upp í haust. Vitað er, að meirihluti þeirra er á móti ESB-aðíld, samt líða vinstri-grænir Össuri Skarphéðinssyni að láta út á við, eins og hann hafi þing og þjóð á bakvið sig í ESB-bröltinu. Komi vinstri-grænir ekki í veg fyrir, að Össur sitji ríkjaráðstefnu með utanríkisráðherra Belgíu 27. júlí nk. um næsta áfanga á leið Íslands inn í ESB, sannast enn, að þeir eru heillum horfnir í málinu. Ekkert er á þá að treysta, Steingrímur J. og Árni Þór Sigurðsson ráða ferðinni. Ég fjallaði um þetta í leiðara á Evrópuvaktinni í dag, eins og lesa má hér.

Furðu vekur, hve litla athygli fjölmiðlar veita umræðunum um Ísland á ESB-þinginu í gær. Sannast enn, að Evrópuvaktin flytur bestu fréttirnar af því, sem er að gerast á vettvangi ESB, hvort sem það snertir Ísland eða annað. Þeir, sem kvarta undan því, að skorti upplýsingar um ESB, vita greinilega ekki af Evrópuvaktinni.

Utanríkisráðuneytið miðlar aðeins upplýsingum, sem snerta persónu Össurar Skarphéðinssonar. Hann ferðast til jaðarríkja Evrópu og lætur, eins og hann hafi séð hrun íslensku krónunnar og bankakerfisins fyrir og þess vegna mælt með ESB-aðild fyrir 10 árum.

Árið 1999 voru þingkosningar á Íslandi. Þá ákvað Alþýðuflokkurinn með Össur í framboði, að ESB-aðild yrði ekki á stefnuskrá flokksins, af því að hann hafði tapað fylgi vegna málsins í kosningunum 1995.