25.7.2010

Sunnudagur, 25. 07. 10.

Hið undarlega við pólitískan ágreining innan ríkisstjórnarinnar um Magma-málið er, að þingmennirnir, sem nú berja sér á brjóst og segjast andvígir sölu á hlut í HS Orku til Magma Energy Sweden, hafa veitt Össuri Skarphéðinssyni umboð til að leiða þjóðina inn í Evrópusambandið og þar með opna enn frekar fyrir fjárfestingum af þessu tagi.

Spyrja má: Hvers vegna tóku vinstri-grænir ekki þennan slag við Samfylkinguna vegna ESB-aðildarinnar? Svarið er, að ríkisstjórnin hefði aldrei verið mynduð, nema með samþykki vinstri-grænna við ESB-aðildarumsókninni. Þeir vilja ekki láta saka sig um loforðssvik við Samfylkinguna, þótt þeir hafi gengið bak orða sinna við kjósendur með annarri ESB-stefnu eftir kosningar en fyrir þær.

Í fréttum í kvöld var gefið í skyn, að innan Samfylkingarinnar væri þingmönnum að snúast hugur í Magma-málinu, hverju sem það breytir, þar sem Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hefur sagt, að ríkið geti ekki rift samningi, sem það gerði ekki.

Nú eru tvær vikur liðnar, frá því að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hóf síðasta Magma-upphlaup vinstri-grænna. Það er í samræmi við máttlausa forystu ríkisstjórnarinnar, að málinu hefur síðan verið kastað eins og heitri kartöflu milli ráðherra.

Upplausnin er algjör á stjórnarheimilinu, þegar Össur Skarphéðinsson tekur þátt í ríkjaráðstefnu í Brussel til að fela ráð sín í hendur ESB. Það er aðeins til marks um, hve Össur og utanríkisráðuneytið hefur fjarlægst þjóðina í ESB-vímunni, að öll tilmæli um að skjóta ráðstefnunni á frest eru hundsuð.