15.7.2010

Fimmtudagur, 15. 07. 10.

Írar sætta sig ekki við markílveiðar Íslendinga og þeir njóta stuðnings átta ríkja innan ESB, enda hefur sjávarútvegsstjóri ESB sent stækkunarstjóranum bréf til að vekja athygli hans á málinu. Með bréfinu er ætlunin að minna á nauðsyn þess, að á þessu máli verði tekið við gerð samningsrammans um Ísland. Stækkunarstjórinn ber ábyrgð á efni hans. Hvert einstakt ESB-ríki hefur neitunarvald um efni hans. Verði ekki ákvæði þar um, að Íslendingar beygi sig undir ákvörðun ESB um makríl-veiðar, samþykkja Írar ekki samningsrammann. Hér er frétt um málið.

Nú eru þrjú mál þess eðlis við gerð ESB-samningsrammans við Ísland, að framkvæmastjórnin verður að krefjast kúvendingar af hálfu Íslendinga, áður en til aðlögunarviðræðna verður gengið. Þessi mál eru: Icesave-málið, hvalveiðarnar, makrílveiðarnar.

Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur á Bifröst, segir mig afbaka ummæli sín  í útvarpi 6. júlí, þegar hann sagði, að ESB mundi reka Íslendinga út af EES-svæðinu, ef þeir drægju aðildarumsóknina til baka. Þá yrði tekið á þeim vegna neyðarlaganna og gjaldeyrishaftanna. Ég mótmæli því, að ég hafi afbakað orð Eiríks Bergmanns. Ég vakti hins vegar athygli á því, hvernig Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor,  hrakti öll rök Eiríks.