27.7.2010

Þriðjudagur, 27. 07. 10.

Í dag skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um ríkjaráðstefnu Íslands og ESB í Brussel og blaðamannafundinni að ráðstefnunni lokinni. Mesta undrun blaðamanna, ráðherra og embættismanna ESB vakti, að Össur væri í Brussel með engan stuðning Íslendinga að baki sér. Hann brást við með því að segja, að lítill stuðningur væri líka við ESB-aðild í Króatíu!

Ríkisstjórnarflokkarnir náðu saman um Magma-málið í dag með því að setja málið í nefnd. Grasrótin hjá vinstri-grænum fagnar. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra leggur á ráðin um spuna um málið með orðavali, sem varla hefur höfðað til feminista í flokknum - eða hvað?

26. júní ákvað flokksráð vinstri-grænna að vísa ESB-málinu til málefnaþings í haust.

Í byrjun ársins mátti ekki nefna orðið Icesave á flokksráðsfundi vinstri-grænna, sem haldinn var á Akureyri.

Með þessum aðferðum tekst Steingrími J. að viðhalda stuðningi vinstri-grænna við hina splundruðu ríkisstjórn, en ekki er rætt um ESB-málefni á fundum hennar, til að ekki sé stöðugt minnt á ágreining um það.