5.7.2010

Mánudagur, 05. 07. 10.

Guðmundur Andri Thorsson kvaddi Fréttablaðið sem dálkahöfundur fyrir nokkru en er nú tekinn til við skriftir þar að nýju og birtir dálka sína á mánudögum. Hann leggur í dag út af því, að lögregla stöðvaði á dögunum fimm Rúmena, sem hingað komu með Norrænu og ætluðu að stunda hér ólöglega starfsemi. Finnst Guðmundi Andra greinilega ekki mjög mikið til þessarar árvekni lögreglunnar koma. Hann segir meðal annars:


„Bara að slík árvekni hefði verið til staðar þar sem hennar var þörf. Hvar voru laganna verðir þegar bankarnir buðu okkur gengistryggðu lánin meðan þeir voru að grafa undan krónunni í næsta herbergi? Hvar var lögreglan þegar bankarnir töldu okkur trú um að við hefðum efni á að kaupa íbúð þegar við höfðum það ekki - bíl, hús, pallbíl, byggja blokk, reisa hverfi, því að þeir hefðu fundið svo sniðuga hjáleið framhjá verðtryggingunni og framhjá íslensku krónunni fyrir okkur? Óhætt er að segja að eina ósýnilega höndin á svæðinu þegar þessi ósköp dundu yfir þjóðina hafi verið hinn langi armur laganna.“

Við, sem munum Baugsmálið, undrumst þessi skrif Guðmundur Andra, þegar blaðið hans Fréttablaðið var notað til að ala á því, að fjármunum væri kastað á glæ með því að rannsaka og sækja það mál. Hvort lögreglan hefði ekki eitthvað annað og betra að gera en eltast við þessa bestu viðskiptasyni þjóðarinnar, sem utanríkisþjónustunni var skipað að sinna umfram allt annað?

Líklega hefur aldrei verið gerð eins skipulögð atlaga að réttarkerfinu með stuðningi öflugra fjölmiðla og gerð var á þeim árum, sem Guðmundur Andri nefnir í grein sinni í dag. Hún var gerð undir stjórn og á kostnað þeirra manna, sem greiða Guðmundi Andra laun fyrir vinnu sína. Jóns Ásgeirs, sem dró í dag rúman milljarð úr pússi sínu til að greiða af láni fyrir ofurdýra lúxúsíbúð í New York á sama tíma og hann lætur sem hann sé ekki borgunarmaður á Íslandi. Var einhver að tala um selstöðukaupmenn síðari tíma? Þá, sem fluttu allan arðinn af verslun sinni á Íslandi til útlanda, til að geta lifað þar í ríkidæmi sínu.

Þegar Guðmundur Andri leyfir sér að tala um arm laganna á þann veg, sem hann gerir nú, ætti hann að lesa sumt af skrifum sínum á blómatíma Baugs, þegar markmið Baugsmanna var að brjóta arm laganna.