3.7.2010

Laugardagur, 03. 07. 10.

Ósannindavaðall DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar tekur á sig ýmsar myndir. Er óskiljanlegt, að fjárfestum detti í hug að verja eignum sínum til að standa undir útgáfu blaðs, sem ekki hefur meiri metnað. Á dv.is er 3. júlí enn rætt illa um framhaldsskólann Hraðbraut og nafn mitt nefnt í því sambandi. Þar segir meðal annars:

„Annar Engeyingur tengist reyndar líka sögu Hraðbrautar. Þetta er Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, en hann tryggði Hraðbraut rífleg fjárframlög frá ríkinu þegar skólinn var opnaður árið 2003.“

Ég veit ekki, hvenær samið var um fjárveitingar úr ríkissjóði til Hraðbrautar. Ég lét af störfum menntamálaráðherra í byrjun mars 2002 og varð dóms- og kirkjumálaráðherra vorið 2003 að loknum þingkosningum. Að segja mig hafa tryggt Hraðbraut „rífleg fjárframlög frá ríkisinu þegar skólinn var opnaður árið 2003“ er einfaldlega rangt.

Hraðbraut hefur reynst mörgum góður skóli. Hér í Fljótshlíðinni var til dæmis nemandi úr skólanum verðlaunaður 17. júní fyrir dugnað og metnað í námi, því að hún hafði orðið stúdent 16 ára.

Sé það vilji vinstri-grænna innan og utan menntamálaráðuneytisins að loka þessum einkarekna framhaldsskóla og sé sú leið valin til þess, að mata DV á óhróðri og upplýsingum, eru heimildarmennirnir ekki upp á marga fiska, ef þeir segja mig hafa samið við stjórnendur Hraðbrautar um fjárframlög á árinu 2003. Líklegast er þó, að þarna ráði Reynir Traustason, sem ber illan hug til mín og nokkurra frænda minna.