24.7.2010

Laugardagur, 24. 07. 10.

Fórum í Skálholt í dag og hlýddum á erindi Kolbeins Bjarnasonar, flautuleikara, um Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara og frumkvöðul sumartónleikanna í Skálholti, sem andaðist í október 2009. Síðan voru tvennir tónleikar til minningar um hana. Fjöldi manns sótti alla viðburðina í fögru veðri.

Umferð hefur greinilega aukist milli Selfoss og Hvolsvallar, eftir að Herjólfur hóf reglulegar ferðir milli lands og Eyja úr Landeyjahöfn.

Fyrir norðan Skálholtsdómkirkju er unnið að því að hlaða Þorláksbúð, tilgátuhús úr torfi og steini. Þá er risin gestastofa vestan við Skálholtsskóla. Hvoru tveggja eykur gildi staðarins fyrir ferðamenn. Þeir sækja staðinn heim, tug þúsundum saman.