1.7.2010

Fimmtudagur, 01. 07. 10.

Við hófum daginn í Reykholti á qi gong æfingum klukkan 08.15 í ráðstefnusalnum í skólahúsinu, þar sem áður var sundlaugin. Deginum lukum við á sama stað um klukkan 23.00 eftir að Gunnar Eyjólfsson hafði efnt til kvöldvöku, þar sem hann flutti meðal annars ljóð Matthíasar Johannessen Hrunadansinn.

Gunnar staldraði sérstaklega við ljóðið, þar sem Matthías yrkir um hernámsdaginn 10. maí 1940. Hann spurði, hvort einhverjir í hópnum myndu eftir deginum og hvaða minningu þau ættu. Nokkrir gáfu sig fram og allir áttu einhverja minningu, sem þeim var ekki horfin.

Kona sagðist hafa búið í sama húsi og stúlka, sem átti vingott við þýskan skipbrotsmann. Minntist hún þess, þegar Bretar komu, handtóku Þjóðverjann og fóru með hann á brott við mikla sorg stúlkunnar. Konan sagði einnig, að faðir sinn hefði keypt eyju í Breiðafirði, til að hann gæti komið henni og systur hennar í öruggt skjól fyrir hermönnunum.

Öll aðstaða til heilsudvalar af þessu tagi er hin besta hér í Reykholti. Allur aðbúnaður á Fosshótelinu til fyrirmyndar eins og staðurinn í heild. Mikið er um matargesti á hótelinu og komust færri að en vildu í hádeginu.