8.12.2009

Þriðjudagur, 08. 12. 09.

Í hádeginu í dag var þess minnst við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu, að 100 ár eru liðin, frá því að það var tekið í notkun. Salome Þorkelsdóttir, formaður stjórnar hússins, flutti ávarp, Ásta Magnúsdóttir, nýskipaður ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu flutti ávarp í fjarveru Katrínar Jakobsdóttur, ráðherra, en 1. október var húsið flutt frá forsætisráðuneyti til menntamálaráðuneytis, og Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðingur, kynnti bók, sem hann ritstýrði, um sögu hússins.

Við athöfnina voru ekki kynnt nein áform af hálfu stjórnvalda um að loka Þjóðmenningarhúsinu, eins og Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur krafist. Það væri svo sem í samræmi við aðra lágkúru, sem frá stjórninni kemur, að ákveða lokun þessa húss. Einhverjir hafa komist að þeirri niðurstöðu að varðveisla þess og nýting til að hýsa handritasýningu og til almenns sýningarhalds eða mannfunda sé til marks um þjóðrembu.

Í dag kom fram, að dagskrá hússins hefði verið skipulögð til ársins 2012, svo að varla verður það aflagt fyrir þann tíma. Hvert ríkisstjórnin hefur leitt þjóðina þá, geturhins vegar enginn sagt á þessari stundu. Flestir skynsamir menn hljóta að vona, að hún verði farin þá, svo að Þjóðmenningarhúsið fái að lifa og þjóðfélagið að dafna án áþjánar þess stjórnleysis, sem birtist á öllum sviðum.

Þegar atkvæði voru greidd um Icesave-málið á þingi í dag, sást, hve lífstrengur ríkisstjórnarinnar er veikur.  Ef Þráinn Bertelsson hefði ekki lagt stjórninni og málinu lið, væri hún úr sögunni.