1.12.2009

Þriðjudagur, 01. 12. 09.

Sat tvo fundi í dag. Hinn fyrri var í ráðstefnusal Þjóðminjasafns á vegum nátturusjóðsins Auðlindar, þar sem sagt var frá endurheimt votlendis og arnarstofninum á Íslandi. Síðari fundurinn var fullveldishátíð á vegum Heimssýnar í Salnum í Kópavogi.

Frá hvorugum fundinum var sagt í fréttum en RÚV sagði hins vegar frá erindi, sem Guðmundur Hálfdánarson, prófessor, flutti um fullveldið frá þeim sjónarhóli, að það væri næsta gamaldags að halda í það í hinum hefðbunda íslenska anda. Ég vísa til þess anda í pistli, sem ég ritaði hér á síðuna í dag.

Á ruv.is er sagt frá viðtali við Guðmund og þetta haft eftir honum:

„Geti Íslendingar ekki staðið við skuldbindingar sínar verði að endurskoða fullveldið. Ljóst sé að hrunið sýni að það sé erfitt að reka lítið ríki eins og Ísland upp á eigin spýtur. Það sé alltaf erfitt en sé enn erfiðara nú vegna þess að Íslendingar hafi ekki lengur þessi beinu tengsl við Bandaríkin.“

Skoðum þetta nánar: Ríki hafa átt í erfiðleikum með að greiða skuldir sínar, án þess að tapa fullveldinu. Af frétt RÚV má ráða, að Guðmundur telji það illa ígrundaða hræðslu Íslendinga, að aðrar þjóðir ásælist auðlindir þeirra. Hitt er ekki síður illa ígrundað, að þung skuldabyrði svipti ríki fullveldi. Hvaða ríki er rekið „upp á eigin spýtur“ á hnattvæddum tímum? Er hitt ekki einmitt vandinn, að Ísland átti aðild að gölluðu regluverki ESB og er látið gjalda þess, eitt ríkja? Skilja má Guðmund á þann veg, að hin „beinu tengsl“ við Bandaríkin hafi rofnað fyrir tilverknað Bandaríkjanna - rofni „beinu tengslin“ verður það vegna aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hér hafa því miður verið of lengi og oft utanríkisráðherrar, sem hafa viljað fórna tengslunum við Bandaríkin til að nálgast Evrópusambandið.