9.12.2009

Miðvikudagur, 09. 12. 09.

Í kvöld klukkan 21.30 verður samtal mitt við séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprest, sent út í þætti mínum í sjónvarpsstöðinni ÍNN.

Frá því er sagt í fréttum, að Jóhannes í Bónus og Kristín, dóttir hans, hafi gengið á fund Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands. DV greindi frá því í nóvember, að Jóhannes sakaði Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor, um að hafa dreift flugriti innan háskólans um son sinn Jón Ásgeir. Vildi Jóhannes fund með rektor, sem þyrfti að taka afstöðu til. hvort reka ætti Hannes. Sagðist Jóhannes hafa fengið nóg af viðleitni þessa opinbera starfsmanns til að niðurlægja fjölskyldu sína.

Á vefsíðunni student.is segir 9. desember:

„Fundurinn í dag stóð í tuttugu mínútur og voru feðginin ánægð með hann. Þau sögðust hafa gengið á fund rektors með nokkur mál sem nú væru í ákveðnum farvegi sem þau væru ánægð með. Spurður hvort hann teldi að skoðanir og gjörðir háskólakennara utan kennslustofunnar hefðu áhrif á gæði kennslunnar sagði Jóhannes „Innræti manna hlýtur að hafa mikið að segja.““

Háskólarektor vildi ekki skýra frá umræðuefni á fundinum með Bónus-feðgininum. Ef annað hefur verið rætt en tilefni hans, verður þessi einkennilega uppákoma enn skrýtnari.  Jóhannes í Bónus er þekktur fyrir að vilja leggja stein í götu allra, sem hann telur sér óvinsamlega. Hann og fjölmiðlar hans leggja illt til þessara manna og leynt og ljóst er reynt að hrekja þá úr störfum þeirra. Það dregur úr virðingu Háskóla Íslands, leggi rektor hans þessari áráttu Jóhannesar lið.

Nú virðist runnið upp fyrir fleirum en áður, hve mikla áhættu lögreglumenn tóku í varðstöðu sinni við alþingishúsið fyrir ári. Níu þeirra sækja skaðabætur á hendur ríkinu vegna meiðsla, sem þeir hlutu. Ástæðulaust er, að hlutur Álfheiðar Ingadóttur, núv. heilbrigðisráðherra, og annarra forystumanna vinstri-grænna við að æsa fólk til mótmæla og jafnvel aðstoða mótmælendur við árás á lögregluna gleymist. Traust til lögreglu er mikið meðal almennings en Steingrímur J. og menn hans skera fjárveitingar til löggæslu við trog. Engin aukafjárveiting hefur verið samþykkt til höfuðborgarlögreglunnar af þessari ríkisstjórn, þvert á móti hefur verið staðið gegn óskum dómsmálaráðherra um að lögregla sæti 7% niðurskurði í stað 10%.