17.12.2009

Fimmtudagur, 17. 12. 09.

Alþjóðafréttastofa Makedóníu, MINA, segir frá því í dag, að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi í dag skýrt þýskum þingmönnum frá því, sem bar hæst á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna í síðustu viku. Þeir hefðu meðal annars rætt, að Ísland og Makedónía yrðu samferða í aðildarviðræðum, sem hæfust á árinu 2010. Af þessu má ráða, að Íslandi hafi verið skotið aftur fyrir Króatíu og Svartfjallaland í aðildarviðræðuröðinni. Til þessa hafa Ísland og Króatía gjarnan verið nefnd í sömu andrá.

Makedónía hefur lengi beðið þess að komast í aðildarröðina. Grikkir hafa hins vegar beitt neitunarvaldi gegn því að Makedónía kæmist á blað. Þeir vilja, að landið skipti um nafn. Makedónía sé hluti af Grikklandi. Hefur ný ríkisstjórn Grikklands fallið frá þessari kröfu? Ég hef ekki séð fréttir um það.

Nýlega komu Grikkir í veg fyrir, að heimildarmynd um Makedóníu yrði sýnd í sendiráði Íslands í Washington. Þeir hótuðu að beita sér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, yrði myndin sýnd! 

Hér er látið eins og íslensk stjórnvöld ráði einhverju um, hvenær leiðtogaráð ESB-ríkjanna gefur grænt ljós á viðræður við Ísland. Þau hafa í raun ekkert um málið að segja. Það ræðst af innri lögmálum ESB og hagsmunatogi milli ESB-ríkjanna.

Um 200 fulltrúar hafa verið skipaðir í nefndir og hópa á vegum Össurar Skarphéðinssonar til að sinna tæknilegum ESB-úrlausnarefnum. Á hinn bóginn hafa engar umræður orðið um samningsmarkmið Íslands. Hvenær og hvar verða þau mótuð eða kynnt? Eða á að hafa sama hátt á og í Icesave-málinu: semja með leynd og sitja síðan með óleysanlegt vandamál í fanginu?