2.12.2009

Miðvikudagur, 02. 12. 09.

Nú er þáttur okkar Styrmir Gunnarssonar á ÍNN loks kominn inn á netið og má nálgast hann hér.

Enn hefur mikilvægi þess, að stjórnarandstaðan ræði Icesave í þingsalnum, sannast. Æ betur skýrist, hve ömurlega hefur verið haldið á málinu af hálfu stjórnvalda. Furðulegt er að heyra Steingrím J. kveinka sér í þingsalnum vegna samningsins, sem hann taldi meistarastykki á sínum tíma. Því nánar sem farið er í saumana á málinu því betur koma gallar þess í ljós.

Þoli ríkisstjórnin ekki, að meira og betur sé rýnt í Icesave-samningana fyrir opnum tjöldum, á hún að sjálfsögðu að beita sér fyrir því, að þingnefnd, sérnefnd þingmanna, taki málið til meðferðar og fái umboð til að hafa beint og milliliðalaust samband við viðsemjendur Íslands. Trúnaðarbrestur er milli þingmanna og embættismanna, sem að málinu hafa komið fyrir Íslands hönd. Ráðherrar hafa ekki fylgt málinu eftir á þann veg, að unnt sé að rekja slóð þeirra með vísan til minnisblaða, sem er með ólíkindum í máli sem þessu. Aðferðin og efni málsins er í molum í höndum ríkisstjórnarinnar. Hún kemst ekki lengra með það.

Oftar en einu sinni hef ég vakið máls á því, að utanríkisráðuneytið hafi ekki getað fellt sig við að missa þann spón úr aski sínum, sem átti að sjálfsögðu að hverfa þaðan með brottför varnarliðsins. Utanríkisráðuneytið taldi sér trú um, að það ætti að verða varnarmálaráðuneyti, án þess þó að minnst yrði á hernað eða hermál. Og lengra var gengið, því að með lögum var varnarmálastofnun utanríkisráðuneytisins veittur úrlendisréttur eins og varnarliðið naut, það er skattfrelsi. Össur Skarphéðinsson hefur nú útfært þennan rétt með reglugerð. Áður en Össur varð ráðherra vildi hann, að varnarmálastofnun hyrfi. Nú hefur hann skipað henni á einstakan sess meðal ríkisstofnana. Hvað veldur?