11.12.2009

Föstudagur 11. 12. 09.

Vefsíðan nýja, Miðjan, eða midjan.is birti í gær eftir mig umsögn um bókina Vigurklerkurinn - ævisaga Sigurðar prest Stefánssonar eins og sjá má hér.

Í gær birtist viðtal Agnesar Bragadóttur í viðskiptablaði Morgunblaðsins við Steinar Þór Guðgeirsson, formann skilanefndar Kaupþings, undir fyrirsögninni: Gífurlegum fjármunum verið bjargað. Minnti efni viðtalsins um of á sjálfshóls-viðtöl við viðskiptajöfra fyrir hrun til að boðskapurinn væri trúverðugur.

Þá er lýsingin á þeirri aðferð, sem beitt er til að ný-einkavæða Arion banka í besta falli sérkennileg. Kröfuhafar eignast Arion banka ekki beint, heldur verður Arion banki sjálfstætt dótturfélag gamla Kaupþings. Af viðtalinu verður ekki vel ráðið, hvernig háttað er samskiptum eða samskiptaleysi milli skilanefndar og slitastjórnar. Allt er einnig óljóst um tímasetningar eða markmið varðandi þær.

Steinar Þór segir, að skilanefndin hafi haft samband við kröfuhafa Kaupþings banka langt umfram lagaskyldu. Hún hefur þannig farið inn á verksvið slitastjórnar og hljóta þó einhver skýr lagaskil að vera á milli þessara aðila. Spurningin um verksvið snýst ekki aðeins um lagaskyldu heldur einnig lagaheimild. Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, að skilanefndin starfar í umboði fjármálaeftirlitsins, sem er því í senn umbjóðandi nefndarinnar og eftirlitsaðili.

Eftir allar umræður um nauðsyn gagnsæis, virks eftirlits og hæfilegrar fjarlægðar á milli þeirra, sem að öllum þessum störfum koma, hefur greinilega markvisst verið stefnt til annarrar áttar, ef marka má samtalið við Steinar Þór.

Nú er unnið að því að skipa stjórn Íslandsbanka og herma fréttir, að Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins og bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands, verði þar formaður. Varla telst mikil fjarlægð frá fyrri tíð felast í því. Þá er sagt, að þrýst hafi verið á um, að bankaráðsmenn yrðu sjö en ekki fimm, svo að Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, gæti fengið sæti í bankaráðinu.

Bankastarfsemi í landinu er nú á einni hendi, það er ríkisins. Ráðherrar keppast við að lýsa yfir því, að þeir komi ekki nálægt neinu, sem bankana varðar. Af þeim yfirlýsingum má draga þá ályktun, að embættismenn og lögfræðingar hafi tögl og hagldir við stjórn bankanna og þeirra fyrirtækja, sem hafa fallið til þeirra. Að þetta kerfi sé best til þess fallið að blása lífi í starfsemi fyrirtækja eða leysa vanda heimila er ólíklegt, svo vægt sé til orða tekið.