7.12.2009

Mánudagur, 07. 12. 09.

Morgunblaðið er með líflegri fréttir en hinir fjölmiðlarnir eins og sannaðist enn í dag, þegar þar var sagt frá leka á tölvubréfum Indriða H. Þorlákssonar, þótt fréttastofa RÚV hafi sagt í morgun klukkan 08.00, að lekinn hafi birst í nótt. Var það til að þurfa ekki að vitna í Morgunblaðið ?

Indriði H. sagði í hádegisfréttum RÚV, að allt hefði birst áður opinberlega, sem lekið hefði verið. Upplýsingafulltrúi forsætisráðherra sagði, að rannsaka þyrfti lekann. Indriði H. sagðist hafa gefið upp einkanetfang sitt, af því að annars kæmist hann ekki í póst sinn erlendis. Nýmæli fyrir okkur, sem höfum farið með tölvur um allan heim og komist í póstinn okkar.

Í ljós kom, að tölvubréfin höfðu ekki birst opinberlega heldur væri þau að finna í trúnaðarskjölum, sem aðeins hefðu verið kynnt þingmönnum.

Öll viðbrögðin báru með sér vandræðaganginn, sem einkennir ríkisstjórnarstarfið í stóru og smáu. Össur Skarphéðinsson veitti Indriða H. ákúrur í þingræðu. Nú er spurning hvort Steingrímur J. taki upp hanskann fyrir aðstoðarmann sinn. Minnt var á, að í september var Indriði H. að rita minnisblað um Icesave á tölvuskjá, sem blasti við samferðarmönnum hans í flugvél.