Sunnudagur, 20. 12. 09.
Kammersveit Reykjavíkur efndi til jólatónleika sinna klukkan 17.00 í Áskirkju. Tónleikarnir voru svo vel sóttir að opna varð inn í safnaðarheimili til að rýma alla gesti. Rut, kona mín, lauk með tónleikunum rúmlega 35 ára forystuhlutverki sínu í kammersveitinni.
Í dag ritaði ég pistil hér á síðuna um hina misheppnuðu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Ég er undrandi, en þó ekki, á að lesa ummæli Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um ráðstefnuna, að niðurstöður hennar séu jákvæðar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þótt skrefið sé lítið. Hvers vegna er ég ekki undrandi? Jú, vegna þess að ráðherrar á ráðstefnunni vilja ekki láta það spyrjast, að þeir hafi setið ráðstefnu, sem endaði með málamynda gjörningi til að bjarga áliti ráðstefnugesta. Í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins segir meðal annars:
„Þátttaka í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er hornsteinn í loftslagsstefnu Íslands og íslensk stjórnvöld munu vinna að því að koma á bindandi samningi um aðgerðir í loftslagsmálum í kjölfar niðurstöðu Kaupmannahafnarfundarins.“
Hvernig væri, að ráðuneytið skýrði, hvað í þessum orðum felst? Þetta er sama rollan og kveðin var í aðdraganda fundarins í Kaupmannahöfn, sem endaði í engu.