Mánudagur, 28. 12. 09.
Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. Sigfússon gátu í sjónvarpsfréttum kvöldsins fullyrt, að Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt. Þau vildu ekki heldur slá því föstu, að félli frumvarpið drægi það ríkisstjórnina með sér í fallinu. Þetta er annar tónn en áður. Sagt hefur verið, að ríkisstjórnin stæði og félli með Icesave-samningunum. Ekki er annað að heyra en svo sé ekki lengur.
Jóhanna Sigurðardóttir sló á sögusagnir um, að hún léti af ráðherraembætti um áramótin. Þessi orðrómur á rætur innan Samfylkingarinnar og endurspeglar vaxandi spennu innan flokksins. Hún brýst nú fram í reiði yfir því, að samfylkingarmaðurinn Jón Sigurðsson, fyrrv. stjórnarformaður fjármálaeftirlitsins, verði bankaráðsformaður Íslandsbanka. Samheldni þingflokks Samfylkingarinnar í Icesave-málinu heldur enn, þótt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi upplýst, að helstu rök Össurar Skarphéðinssonar um nauðsyn Icesave-samninganna séu ekki á rökum reist, eins og ég rakti í pistli mínum í gær.
Hvað sem gerist í Icesave-atkvæðagreiðslunni á alþingi, er eitt víst, að allir þingmenn Samfylkingarinnar munu leggja afarkostunum lið sitt. Samfylkingin fór með stjórn utanríkismála haustið 2008 og gerir enn. Utanríkisráðherra ber stjórnskipulega ábyrgð á samningum við önnur ríki, þótt Össur fari með veggjum í Icesave-málinu og skirrist við að fylgja málstað Íslands eftir af þeim þunga, sem nauðsyn er með vísan til hinna miklu hagsmuna, sem eru í húfi.