12.12.2009

Laugardagur 12. 12. 09.

Umræður um stöðu og starfshætti bankanna eru að aukast, enda átta fáir sig á því, hvernig haldið er á málum þeirra í raun og veru. Hið sama er uppi á teningnum og fyrir hrun, að bankamenn leitast við að gera hlut sinn sem bestan og bera gjarnan fyrir sig bankaleynd, þegar nánar er spurt en þeir vilja upplýsa.

Skýrt var frá því, að Steingrímur J. hefði sett af stað athugun innan stjórnarráðsins á því, hvort ríkissjóður geti sótt skaðabætur frá einstaklingum eða lögaðilum, sem hefðu valdið honum skaða með bankahruninu. Fjórir lögfræðingar innan stjórnarráðsins eru sagðir vinna að þessari athugun og Steingrímur J. sagðist hafa rætt málið við ríkislögmann.

Fréttir um þetta athugun í þágu Steingríms J. bera öll merki þess, sem menn mundu kalla smjörklípu, ætti Davíð Oddsson í hlut. Steingrímur J. ræður ekki ferðinni lengur í Icesave-málinu. Fjárlagagerðin hangir á bláþræði. Skattamálin eru í uppnámi.

Þá grípur Steingrímur J. til þess, sem hann telur sér helst gagnast: að beina athygli að sökudólgunum. Hve oft hefur hann ekki hrópað upp yfir sig, þegar allt er komið í óefni: Já, en allt er betra en Sjálfstæðisflokkurinn! Hann telur öruggt, að athugun stjórnarráðs-lögfræðinganna beini einmitt athygli að sjálfstæðismönnum.

Hvergi svo vitað sé, eru fjármálaráðherrar með vanda Steingríms J. á herðunum með allan huga við að finna sökudólga. Þeir einbeita sér að því að sinna skyldum sínum með því að hafa stjórn á fjármálunum. Steingrímur J. hefur enga burði til þess eins og aukning á halla ríkissjóðs, frá því að hann tók við embætti, sýnir. Fyrir utan Icesave-hneykslið, sem er á hans ábyrgð.