Föstudagur, 04. 12. 09.
Forystumenn stjórnarandstöðunnar birtu yfirlýsingu um Icesave-málið í dag, þar sem segir m. a.:
„Stjórnarandstaðan mun leggja til að frumvarpi fjármálaráðherra verði vísað frá Alþingi og til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Stjórnarandstaðan telur að ríkisstjórninni beri að taka upp viðræður við Evrópusambandið í þeim tilgangi að það hafi milligöngu um að leiða deilu þjóðanna til lykta á sanngjarnan hátt. Verði ekki á það fallist beri að hafna öllum kröfum um ríkisábyrgð þannig að Bretar og Hollendingar þurfi að sækja kröfur sínar á hendur íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum.“
Hér hefur verið hreyft þeirri hugmynd, að sérnefnd verði kjörin af alþingi til að leita sameiginlegrar niðurstöðu í Icesave-málinu. Tillaga stjórnarandstöðunnar gæti orðið gott erindisbréf slíkrar nefndar, því að borin von er, að ríkisstjórnin aðhafist nokkuð út á við í málinu. Þá er til þess að líta, að erlendir viðsemjendur ríkisstjórnarinnar líta örugglega á hana sem ótrúverðuga í málinu og vilja ekki meira við hana ræða um það, án þess að vita fyrirfram um hug alþingis.
Í stórmálum á borð við landhelgismálin, sem snerta hagsmuni þjóðarinnar út á við, hefur alþingi kjörið menn í sérnefnd til að sinna málinu með viðkomandi ráðherra og forsætisráðherra.
Hvort sem menn eru með eða á móti Icesave átta þeir sig á því, að ríkisstjórnin hefur reynst ótrúlega veikburða í málinu. Forsætisráðherra heldur að sér höndum, utanríkisráðherra lætur eins og málið sé ekki á hans borði og fjármálaráðherra flytur þingmönnum blíðmæli og hótanir til skiptis.
Skilja mátti Ragnhildi Thorlacíus, þingfréttaritara RÚV, á þann veg, að svo miklar deilur væru um meðferð Icesave á bakvið tjöldin á alþingi, að sjálf Ásta Ragnheiður, þingforseti, hefði orðið að miðla málum. Eitthvað er þessi frásögn málum blandin og líklega komin frá Ástu Ragnheiði til að auka hlut hennar.
Forseti alþingis hefur það meginhlutverk að þoka málum ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið. Þeim Guðbjarti Hannessyni og Ástu Ragnheiði hefur gengið ótrúlega illa að sinna þessu verkefni, mun verr en Sturlu Böðvarssyni, forvera þeirra á forsetastóli þingsins. Skyldi það vera reynsluleysi þeirra Guðbjarts og Ástu Ragnheiðar sem setur mark sitt á framvindu þingmála? Eða þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur? Hún kann ekki, eins og kunnugt er, að finna sáttaleið í neinu máli.