21.12.2009

Mánudagur, 21. 12. 09.

Í dag birtist umsögn mín um Vigdísi, ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur, á vefsíðunni Miðjunni og má lesa hana hér.

Í fréttum var skýrt frá því, að breska lögmannsstofan Mischon de Reya hefði komist að þeirri niðurstöðu, að Bretar og Hollendingar krefðu Íslendinga um alltof háa vexti samkvæmt Icesave-samningunum alræmdu.  Fleira taldi stofan einnig gagnrýnisvert við samningana. Fréttamaður sjónvarps RÚV dró þessa ályktun í kvöldfréttum: 

„Málið snýst fyrst og fremst um pólitískt mat og þar eru stjórn og stjórnarandstaða ósammála. Tveir kostir virðast í stöðunni og báðir slæmir. Annars vegar að samþykkja vondan samnning nú og opna fyrir eðlileg samskipti við umheiminn eða að hafna samkomulaginu eða tefja afgreiðslu málsins og kalla yfir sig reiði og jafnvel refsiaðgerðir öflugra stórvelda.“

Hér skal haldið fram, að hvorugur kosturinn, sem fréttamaðurinn nefndi eigi við rök að styðjast. Allar hrakspár Jóhönnu og Steingríms J. um einangrun án Icesave-samninga hafa reynst rangar. Hefur sú staðreynd farið fram hjá fréttastofu RÚV? Skyldi fréttamaðurinn trúa því, að ríkisstjórnir Hollands og Bretlands setji viðskiptabann á Ísland, verði ekki tafarlaust gengið frá Icesave-samningunum? Staðreynd er, að samningarnir verða verri, því meira sem þeir eru skoðaðir. Hitt er einnig staðreynd, að tíminn hefur unnið með Íslendingum að því leyti, að fleiri en áður átta sig á bolabrögðunum, sem Bretar og Hollendingar hafa beitt og vesaldómi íslensku samningamannanna.