10.12.2009

Fimmtudagur, 10. 12. 09.

Hér má sjá samtal okkar séra Hjálmars Jónssonar, dómkirkjuprests, á ÍNN í gærkvöldi.

Í dag klukkan 17.00 efndi utanríkismálanefnd Sjálfstæðisflokksins til umræðufundar í Valhöll um loftslagsmál í tilefni af ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ágúst H. Bjarnason, verkfræðingur, og Illugi Gunnarsson, alþingismaður, voru framsögumenn og svöruðu spurningum.

Á fundinum styrktist sú skoðun mín, að eitthvað sé bogið við fullyrðingar um, að jörðin sé að hitna. Þvert á móti sýna allar mælingar síðan 2002, að hið gagnstæða er að gerast. Þá er tímabundið hlýskeið síður en svo nokkurt einsdæmi. Engin ótvíræð staðfesting er fyrir því, að hlýnun hafi verið af mannavöldum. Hitt er hins vegar staðreynd, að maðurinn ógnar umhverfi sínu á margvíslegan hátt.

Fráleitt er að láta eins og Íslendingar væru að skapa sér einhverja sérstöðu meðal þjóða, með því að láta hagsmuni sína áfram ráða afstöðu sinni til hugsanlegs samkomulags um loftslagsmál á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.

Í íslenska ákvæðinu í Kýótó-samkomulaginu felst ekki annað en viðurkenning á sérstöðu Íslands, vegna þess hve orkuframleiðsla hér er vistvæn. Nú lætur Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, eins og það sé eitthvert meiriháttar íslenskt framlag til að standa gegn loftslagsbreytingum, að fallið sé frá þessu ákvæði. Þegar maður hlustar á röksemdir hennar, vakna spurningarnar: Trúir hún þessu? Eða veit hún ekki betur?