19.12.2009

Laugardagur, 19. 12. 07.

Uppákoman í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi var furðuleg, þegar Sigmar Guðmundsson flutti ávarp um, að Ögmundur Jónasson, alþingismaður, hefði verið undir áhrifum áfengis við atkvæðagreiðslu á alþingi, enda hefði hann neitað viðtali við sjónvarpið með vísan til þess, að hann hefði fyrr um daginn fengið sér vínglas. Erfitt er að átta sig á því, hvað vakir fyrir Kastljósi með slíkri fréttamennsku. Var verið að bera blak af Sigmundi Erni Rúnarssyni, sem olli undrun og jafnvel hneykslan margra vegna framgöngu sinnar í ræðustól þingsins fyrir nokkru?

Þeir, sem þekkja sögu íslenskrar blaðamennsku, vita, að fyrir hálfri öld eða svo, þótti næsta vonlítið að boða blaðamannafund, án þess að veitt væri áfengi, oft ótæpilega. Þetta hefur breyst til hins betra og vínveitingar horfið og hið sama er að segja um drykkjuvenjur þingmanna.

Hitt er jafnframt staðreynd, að áfengisneysla hefur tekið á sig þá mynd, að skálað er í vín- eða bjórglasi með mat í hádegi, ef svo ber undir, og einnig má sjá hér eins og víða um lönd, að vinnufélagar fái sér bjórglas á kaffihúsi að vinnu lokinni.

Kastljós að segja hófdrykkju stríð á hendur, er það í sjálfu sér virðingarvert. Hins vegar er ómaklegt, að Ögmundur Jónasson sé gerður að blóraböggli í því stríði.

Sagt er, að hvergi fái menn göfugra vín en í veislum franska þingsins. Barinn er einn vinsælasti staðurinn á þingum Evrópuráðsins og Evrópusambandsins í Strassborg. Í ævisögum breskra þingmanna má lesa frásagnir af því, að til að glöggva sig á því, sem þeir sögðu á kvöldfundi, eftir góðan málsverð, hafi þeir þurft að rýna í þingtíðindi.