Miðvikudagur, 23. 12. 09.
Fréttablaðið fetar í leiðara í dag í fótspor DV í því skyni að sverta Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, með dylgjum og Egill Helgason hoppar um borð með rógsliðinu á bloggi sínu. Forvitnilegt er að sjá, að Baugspennarnir gömlu hafa fundið sér nýjan einstakling til að ófrægja og komist á þann hátt í jólaskap.
Eiður Smári, fótboltakappi, hefur ákveðið að stefna DV vegna ófrægingarskrifa blaðsins um hann. Spurning er, hvort hann fellur í flokk með stjórnmálamönnum og öðrum, sem dómstólar hafa sagt, að verði að una því, að vegið sé að heiðri þeirra á opinberum vettvangi.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur staðfest þá stefnu stjórnarliða, að veita beri Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sérstakt skjól, svo að hann geti komið ár sinni fyrir borð að nýju í íslensku viðskiptalífi. Til þess virðist ætlunin að misnota Arion banka.
Í krafti meiri leyndar en áður hefur ríkt í íslensku viðskiptalífi er unnið að meiri eignatilfærslu í landinu en nokkru sinni fyrr í sögunni. Hin opinbera afstaða til Jóns Ásgeirs sýnir, að þar gengur ekki eitt og hið sama yfir alla.
Einkennilegt er, að engum fjölmiðlamanni detti í hug að spyrja Evu Joly um álit hennar á því, sem gerst hefur í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvað hún segi um ráðstafanir skilanefnda. Eva Joly er sérfróð um, hvernig þeir, sem hafa opinbert umboð geta misfarið með vald sitt.
Ekki er við því að búast, að Fréttablaðið leggi fram spurningar um störf skilanefnda eða eignarhald nýju bankanna. Daður valdhafanna við Jón Ásgeir miðar að því að tryggja stuðning Fréttablaðsins við ríkisstjórnina og hina sérkennilegu stjórnarhætti hennar.