3.12.2009

Fimmtudagur, 03, 12. 09.

Í gær sagði Steingrímur J. Sigfússon á alþingi, að Evrópusambandið hefði sett okkur afarkosti vegna Icesave. Í morgun sagði Jóhanna Sigurðardóttir á alþingi, að Steingrímur J. hefði ekki sagt þetta heldur eitthvað allt annað. Jóhanna þolir ekki frekar en annað samfylkingarfólk, að Evrópusambandinu sé hallmælt.

Það er svo sem í takt við þá stefnu RÚV, að segja ekki frá efnisatriðum Icesave-umræðnanna á þingi, að ekki skuli vera minnst á þessi orðaskipti í fréttum þess. Ragnhildur Thorlacius, þingfréttaritari, er uppteknari af því, að þingmenn ræði Icesave heldur en hvað sagt er í umræðunum, nema þegar þingmenn eru að skylmast í návígi vegna þingskapa.

Þessi frásagnarhefð þingfréttaritara RÚV er sambærileg við það, ef íþróttafréttaritarar lýstu aðeins ágreiningi leikmanna við dómarann en létu hjá líða að segja frá leiknum sjálfum. Áhugamenn um íþróttir eða leikmenn létu ekki bjóða sér slíka fréttamennsku. Þingmenn sitja hins vegar uppi með, að þessi mynd sé oftast dregin af vinnu þeirra.

Deilum af þessum toga lýkur ekki á alþingi nema með samkomulagi. Þar ber forsætisráðherra mesta ábyrgð og undir dómgreind hans er komið, hvort málum er haldið áfram í farvegi sem þessum eða beint í annan. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hins vegar hvorki skapgerð né burði til að leiða deilur til lykta á skaplegan hátt. Icesave-málið sjálft er sorglegasti og dýrkeyptasti vitnisburðurinn um það.