Laugardagur, 26. 12. 09.
Í jólahefti enska vikublaðsins The Spectator er farið til fimm borga, Reykjavíkur, Shanghai, Dar es Salam í Tanzaníu og Dili á Austur-Tímor til að skoða efnahagsástandið og viðhorf fólks.
Elliot Wilson, dálkahöfundur blaðsins, segir stuttlega frá kynnum sínum af Reykjavík, eftir að Íslendingar hafi „struggled through their worst annus horribilis since Ingólfur Arnarson built his homestead in Reykjavík in AD 874.“
Wilson hefur ekki verið fræddur mikið um sögu Íslands, á meðan hann dvaldist hér, ef hann heldur að Íslendingar hafi aldrei lifað erfiðara ár en 2009, frá því að land byggðist. Hann lætur þess að vísu ógetið, að ríkisstjórn Íslands og þó sérstaklega fjármálaráðherrann vill mála stöðuna í sem dekkstum litum og gera hana enn verri með skattahækkunum og Icesave-byrðunum.
Wilson segir, að Hildur, blaðakona, hafi tekið 4 milljón króna lán í Landsbankanum 2007 til að kosta ferð sonar síns í sumarskóla í körfuboltaleik í Boston. Landsbankinn hafi ráðlagt henni að taka lánið í svissneskum frönkum og á 12 mánuðum hafi það tvöfaldast. Hún kveinki sér og segist þurfa 20 ár til að ljúka endurgreiðslunni.
Blaðamaðurinn vitnar í Indriða H. Þorláksson, aðstoðarmann fjármálaráðherra, og segir hann reiðan í garð fyrirrennara sinna, sem kenni öllum öðrum um en sjálfum sér. Hann sé bitur í garð bankamanna og allra hinna, sem hafi leitt Íslendinga út í þetta. Það yrði fróðlegt fyrir blaðamanninn að líta hingað að ári og leggja mat á, hvort valdi íslenskum efnahag langvinnari skaða bankahrunið eða Icesave-afarakostirnir og skattaálögurnar, sem Indriði H. hefur keppst við að skella á þjóðina.
Grein sinni lýkur Elliot Wilson á þessum orðum:
„Reykjavík may be floating on a iceberg of debt, but this unspoiled dead-of-winter wilderness is a marvellous place to lie in the snow and sip a brandy.“
Fraser Nelson, ritstjóri The Spectator, ræðir við Mandelson lávarð, lykilráðherra í ríkisstjórn Gordons Browns og bjargvætt hans í pólitískum hremmingum síðastliðið sumar. Mandelson lætur sem hann þekki ekki skuggaráðherra Íhaldsflokksins og til að undirstrika vanþekkingu hans segir ritstjórinn: „He looked at me as blankly as I had asked him about the Icelandic government.“