Miðvikudagur, 16. 12. 09.
Logn og sólbirta var í Fljótshlíðinni í dag, þegar Árni Jóhannsson, bóndi í Teigi, var borinn til grafar að viðstöddu miklu fjölmenni frá kirkjunni að Breiðabólstað. Árni var lagður til hinstu hvílu í nýjum hluta kirkjugarðsins að Breiðabólstað og vígði séra Önundur Björnsson hann, þegar hann kastaði rekunum. Að athöfn lokinni var boðið til Goðalands, þar sem gestir þáðu hangikjöt.
Í The Times í London er sagt frá, því að innan Evrópusambandsins sé þeim sjómönnum boðinn stærri kvóti, sem heimila eftirlitsmyndavélar í skipum sínum, svo að fylgjast megi með því, hvernig þeir fara með aflann.
Í fréttum um mann, sem var rændur 10.000 evrum, þegar hann ætlaði að fara i kringum gjaldeyrishöftin með því að selja þær í Súðarvogi, var tekið fram, að engar eftirlitsmyndavélar væru í Súðarvogi og þess vegna væri erfiðara en ella að finna ræningjana. Spurning er, hvort maðurinn hafi ekki einmitt verið með peningatöskuna í Súðarvogi til að komast hjá slíkum myndavélum.