29.12.2009

Þriðjudagur, 29. 12. 09.

Nú dregur að lokum umræðna á alþingi um Icesave-málið. Þegar þetta er skrifað rúmlega 22.00 er hlé á þingfundi. Sjálfstæðismenn óskuðu eftir því til að ræða ný gögn í fjárlaganefnd. Nefndinni höfðu í kvöld borist mikið af gögnum frá ensku lögmannsstofunni Mishcon de Reya.

Rökin gegn þeirri leið, sem ríkisstjórnin hefur valið eru alltaf að skýrast. Í dag ritar Magnús Ingi Erlingsson, lögfræðingur hjá seðlabankanum, grein í eigin nafni í Morgunblaðið þar sem hann áréttar enn með vísun til Evrópuréttar, að engin lögfræðileg rök séu fyrir ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Þegar greinin er lesin, vaknar enn hin einfalda spurning: Hvar í ósköpunum leituðu samningamenn Íslands ráða?

Því miður stóð samninganefndin ákaflega illa að sinni vinnu og Steingrímur J. hefur aldrei viljað taka á málum á annan veg en þann, að allt hafi verið til fyrirmyndar í störfum hennar. Æ betur kemur í ljós, að í þessu felst hættuleg meinsemd.

Hér skal ítrekuð tillaga um, að alþingi feli sérnefnd að fara yfir málið í heild nú á lokastigi þess. Fjárlaganefndarmenn komast ekki lengra með málið og formaður nefndarinnar festi sig í niðurstöðu, áður en öll kurl voru komin til grafar.

Engin sérstök tímapressa er í málinu af hálfu samningsaðila eins og sást best við gerð samninganna, þegar Bretar drógu von úr viti að ganga til formlegra viðræðna. Þeir urðu undrandi, þegar Svavar Gestsson og félagar töldu viðræðum lokið og settu stafi sína á blað því til staðfestingar.