6.12.2009

Sunnudagur 06. 12. 09.

Nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar er komið út. Grein Ögmundar Jónassonar um bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið, hefur vakið sérstaka athygli. Margt annað forvitnilegt efni er í heftinu eins og jafnan áður. Að þessu sinni skrifa ég um utanríkisstefnu Íslands í minn fasta dálk. Ég velti fyrir mér, hvort hætt verði að móta hér sérstaka stefnu í utanríkismálum og Evrópusambandinu látinn sá málaflokkur eftir.

Forsmekkurinn af því, sem er í vændum, nái stjórnarstefnan um ESB-aðild fram, sést af því, að á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn ætlar ríkisstjórnin að láta sér nægja að vera í ESB-hópnum. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, telur það ekki sæma Íslendingum að gæta eigin hagsmuna á ráðstefnunni, nóg sé nú samt. Þetta er í góðu samræmi við framgöngu ráðherra í Icesave-málinu. Þar keppast þeir við að hampa rökum Breta og Hollendinga og láta eins og við þeim megi ekki bregðast.